Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 701. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1332  —  701. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á ýmsum lögum við stofnun Landbúnaðarstofnunar.

Frá meiri hluta landbúnaðarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðmund B. Helgason, Eystein Jónsson, Ingibjörgu Ólöfu Vilhjálmsdóttur og Hákon Sigurgrímsson frá landbúnaðarráðuneyti, Halldór Runólfsson frá embætti yfirdýralæknis, Guðmund Stefánsson frá Lánasjóði landbúnaðarins, Jón Magnússon frá fjármálaráðuneyti, Harald Benediktsson og Sigurgeir Þorgeirsson frá Bændasamtökum Íslands, Árna Ísaksson frá embætti veiðimálastjóra, Stefán Vilhjálmsson frá Yfirkjötmati ríkisins, Ólaf Guðmundsson frá aðfangaeftirlitinu og Sigurgeir Ólafsson frá plöntueftirliti.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Vottunarstofunni Túni hf., Félagi kjúklingabænda, yfirdýralækni, Náttúrufræðistofnun Íslands, Veiðimálastofnun, veiðimálastjóra, aðfangaeftirlitinu, Bændasamtökum Íslands, héraðsdýralækni Austurlandsumdæmis syðra, Landssambandi veiðifélaga, Neytendasamtökunum, Eyþingi, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Búnaðarsambandi Skagfirðinga, Búnaðarsambandi Eyjafjarðar, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Bandalagi háskólamanna.
    Með frumvarpinu er lagt til að aðfangaeftirlitið, embætti yfirdýralæknis, veiðimálastjóra og kjötmatsformanns verði lögð niður og að verkefni þeirra, ásamt plöntueftirliti Landbúnaðarháskóla Íslands og ýmsum eftirlits- og stjórnsýsluverkefnum hjá aðalskrifstofu landbúnaðarráðuneytis og Bændasamtökum Íslands verði færð til Landbúnaðarstofnunar sem lagt er til að stofnuð verði með frumvarpi sem lagt er fram samhliða frumvarpi þessu.
    Meiri hlutinn leggur til þær breytingar á frumvarpi til laga um Landbúnaðarstofnun að ekki verði gerð krafa um að forstjóri stofnunarinnar verði dýralæknir heldur gerðar almennar hæfiskröfur og krafa um háskólamenntun og æðri menntun. Telur meiri hlutinn því nauðsynlegt til að tryggja faglegt mat við innflutning dýra og afurða þeirra að leggja til að titilinn yfirdýralæknir haldist í lögum og enn fremur að dýralæknir veiti forstöðu því sviði sem fer með dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Þá leggur meiri hlutinn einnig til fjölmargar breytingar sem varða málfar og lagfæringar á tilvísunum.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Einar Oddur Kristjánsson, Lúðvík Bergvinsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 4. maí 2005.



Drífa Hjartardóttir,


form., frsm.


Anna Kristín Gunnarsdóttir.


Birkir J. Jónsson.



Guðmundur Hallvarðsson.


Dagný Jónsdóttir.